KSH Fasteignir ehf greiddi hálfan milljarð króna fyrir herkastalann, fasteignina við Kirkjustræti 2 sem áður hýsti starfsemi og gistiheimili Hjálpræðishersins. Þetta kemur fram í kaupsamningi.

Nýir eigendur, KSH Fasteignir ehf., er víetnamskt - íslenskt fjölskyldufyrirtæki sem rekur veitingahúsakeðjuna Pho og fjölda matvörumarkaða. Seljandi Kirkjustrætis er Kastali fasteignafélag sem er í eigu sjóðs í rekstri hjá GAMMA. Kastali ehf. hafði þar áður keypt Herkastalann á 630 milljónir króna, eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma.

Í kaupsamningi er herkastalanum lýst sem gistihúsi á fjórum hæðum auk kjallara og rislofts. Húsið er byggt árið 1916 og er rúmlega 1400 fermetrar að stærð.

Sjá einnig: Kaupa herkastalann og opna mathöll

Nýir eigendur ætla að endurnýja húsið í samræmi við nútímakröfur en halda bæði í upprunalegt útlit og skipulag hússins sem rúmar 53 gistiherbergi auk stuðningsrýma, að því er kemur fram í tilkynningu.

Gert er ráð fyrir að efri hæðir Kirkjustrætis 2 hýsi áfram almennan gistirekstur en á jarðhæð verði móttaka og veitingasala ásamt því sem hinn rómaði veislusalur verði notaður undir veitingastarfsemi, viðburði og þjónustu.