Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri olíuverslunar N1, segir eldsneytisverð geta verið lægra hér á landi. Ekkert olíufélag hafi hins vegar burði til að lækka verðið nema N1. Ástæðan fyrir því að verðið er ekki lægra er sú að hin olíufélögin eru mun skuldsettari en N1 og geti ekki lækkað verð sitt. Þá bendir hann á að hin olíufélögin vilja hafa þessa arðsemi.

Hermann segir í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í morgun verðstríð á olíumarkaði geta haft víðtækar afleiðingar.

„Það myndi vara mest í 4-6 mánuði og þá yrðu 1-2 söluaðilar gjaldþrota - og eftir stæðu 1-2. Það er væntanlega ekki staða sem neytendur eru spenntir fyrir," segir Hermann. Hann segir m.a. ljóst að fjórða félagið á markaði, Atlantsolía, hefði aldrei fótað sig á markaði ef hin olíufélögin hefðu beitt sér af öllu afli í verðstríði gegn því.

"Jafnvel þó að stjórnendur N1 hafi gert sér grein fyrir því að félagið hefði burði til að lækka verðið þá bar okkur líka skylda til þess að virða ákveðið ástand sem var á markaðnum, þ.e. að félögin voru misvel sett," segir hann.

Rætt er við Hermann í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.