Hermann Haraldsson er hættur í  stjórn 365 Media Scandinavia, útgáfufélagi Nyhedsavisen. Hann segir í samtali við Berlingske Tidende að hann sé að sjálfsögðu svekktur yfir því hvernig fór með blaðið.

„Ég er að hætta enda hefur félagið engin verkefni lengur," er haft eftir honum í BT. Hann segir að allt hafi verið reynt til að tryggja rekstur Nyhedsavisen út árið. Forsvarsmenn blaðsins hafi haft mikla trú á því.

„Miðað við núverandi ástand á fjármálamörkuðum er kannski skiljanlegt að einhverjir hafi gripið í handbremsuna," segir hann enn fremur.

Morten Lund, aðaleigandi Nyhedsavisen, tilkynnti eins og kunnugt er um mánaðamótin að útgáfu blaðsins hefði verið hætt.