Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir ýmislegt hafa breyst eftir hrunið. Í þrengingunum hafi bæði fyrirtæki og einstaklingar sagt upp tryggingum í því skyni að draga saman seglin eins og unnt er. „Það hefur leitt til þess að í dag er samfélagið vantryggt. Að þessu þurfum við að huga vel því sú staða getur komið upp hjá okkur öllum að það reynist afdrifaríkt að vera án nauðsynlegra trygginga,“ segir hann í ítarlegu Viðtali sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Sem dæmi um vantryggingu nefnir hann að bílaflotinn hefur elst. „Það hefur leitt af sér að kaskótryggingum er sagt upp. Það sama má segja um líftryggingar. Ungt fólk hefur sagt þeim upp því það lítur svo á að það geti verið án þeirra. En það er auðvitað slæmt ef eitthvað óvænt kemur upp á og tryggingarnar eru ekki til staðar. Þróunin er mjög áberandi á markaðinum öllum,“ segir Hermann. Að einhverju leyti sé hún skiljanleg, fólk reyni að ná endum saman. Þróunin sé hins vegar hvorki holl né góð verði hún viðvarandi.

Viðtal við Hermann má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.