„Nú ber svo við að í fyrsta skipti í 18 ár hef ég eingöngu skyldur gagnvart sjálfum mér og minni fjölskyldu,“ segir Hermann Guðmundsson, fv. forstjóri N1, og brosir við.

Í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu var Hermann m.a. spurður út í starfslok sín og hvað tæki nú við en sem sem kunnugt er sagt upp störfum hjá félaginu eftir að hafa stýrt því í rúm sex ár.

„Ég er þó búinn að fá mörg símtöl og mörgum hugmyndum hefur verið hvíslað að mér. En ég ætla að gefa mér góðan tíma því næsta verkefni sem maður tekur sér fyrir hendur gæti orðið það síðasta sem maður gerir á vinnumarkaði,“ segir Hermann.

„Ég á um 15 góð ár eftir á vinnumarkaði og ég á eftir að gera það upp við mig hvort ég vil vinna fyrir sjálfan mig, líkt og ég gerði áður, eða hvort ég vil vinna fyrir einhvern annan og þá hvern. Þar vill maður vanda valið því mér finnst það skipta meira máli með hverjum þú vinnur heldur við hvað þú vinnur. Ég nýt þess að vinna með góðu fólki en hef litla þolinmæði fyrir því að vinna með fólki sem mér líður ekki vel með.“

Nánar er rætt við Hermann í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Hann stjórnaði hraðri og áberandi uppbyggingu olíufélagsins N1 þangað til honum var sagt upp störfum í síðasta mánuði eftir að nýir eigendur komu að félaginu. Í viðtalinu tjáir Hermann sig um starfslok sín og aðdraganda þeirra, uppbyggingu félagsins, greiðsluvandræði móðurfélagsins sem næstum felldi N1 og loks um samkeppnina á milli olíufélaganna.  Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.