Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, sagði í samtali við Morgunblaðið um þarsíðustu helgi að verið væri að festa í sessi ójafnræði á markaðnum með samkomulagi Seðlabankans viðsamkomulagi Seðlabankans við erlend tryggingafélög sem gerir þeim kleift að bjóða upp á sparnað í erlendri mynt. Sagði hann útilokað fyrir tryggingafélög að keppa við erlend tryggingafélög á slíkum vettvangi.

Eyjólfi Lárussyni, framkvæmdastjóra Allianz á Íslandi, þykir ummælin undarleg og segir Allianz alls ekki fá neina sérmeðferð. „Málið var einmitt leyst þannig að allir væru undir sama hatti og búin til lausn sem allir gætu nýtt sér ef vilji er fyrir hendi. Því veit ég ekki alveg hvað hann átti við. En ef hann vill kynna sér þetta betur er honum velkomið að kíkja til mín í kaffi og ég gæti farið yfir þetta með honum.“

Hermann segist í samtali við Viðskiptablaðið vera ósammála þessu. „Ef við förum til baka til þess tíma þegar gjaldeyrishöftin voru sett á þá vorum við að selja þessa þjónustu líka. Við virtum hins vegar lagasetninguna og hættum þessari sölu.“

Í framhaldinu hafi erlendum tryggingafélögum verið leyft að selja þessa vöru áfram en ekki innlendum aðilum. „Þeim er gert kleift að koma inn með gjaldeyri á móti þeirri sölu sem hefur átt sér stað. Við eigum hins vegar engan gjaldeyri erlendis frá og erum þess vegna ekki í sömu stöðu. Þetta er stjórnsýsla sem maður áttar sig ekki alveg á. Ég sé ekki hvernig við sitjum öll við sama borðið í þessu,“ segir Hermann.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um lífeyri og tryggingar sem kom út á fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .