Orðrómur um hugsanlega hernaðarárás Ísraels og/ eða Bandaríkanna gegn Íran er ekki nýr af nálinni. Geta Ísraela til að standa einir að baki slíkri árás er hins vegar takmörkuð.

Eru verulegar líkur á því að Ísraelsher muni gera loftárásir á írönsk kjarnorkuver á þessu ári? Því fer fjarri að orðrómur um hugsanlega hernaðarárás Ísraels og/eða Bandaríkanna gegn Íran sé eitthvað nýr af nálinni. En forsíðufrétt New York Times af hernaðaræfingum Ísraelsmanna yfir Miðjarðarhafi á dögunum – þar sem hundrað F-15 og F-16 herþotur flugu sambærilega vegalengd og á milli Ísraels og kjarnorkuvera Írans – hefur á ný magnað upp slíkar væntingar.

Hins vegar hefur þessi geópólitíska spenna aukist mikið á undanförnum vikum samhliða því að Ísraelar hafa viðrað auknar áhyggjur um raunveruleg kjarnorkuáform Írana. Margir háttsettir ísraelskir stjórnmálamenn telja Írana vera á barmi þess að geta framleitt kjarnorkuvopn – eða minnsta kosti getu til að framleiða slík vopn með skömmum fyrirvara.

Um þetta ríkir þó alls ekki eining. Íranar fullyrtu að hernaðaræfingar Ísraelsmanna hefðu eingöngu verið liður í sálfræðihernaði Ísraela. Engar líkur væru á því að Ísrael gæti framkvæmt slíka árás. Það er ekki ljóst af hverju Íranar héldu að loftárás væri með öllu óhugsanleg, en engu að síður hafa þeir sennilega rétt fyrir sér um að hér hafi aðeins verið um sálfræðihernað að ræða af hálfu Ísraels.

Ísraelsk stjórnvöld virtust leggja sig fram um að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að fréttir af heræfingunni birtust opinberlega. Og bandarískir embættismenn, sem augljóslega vissu af æfingunni en höfðu haldið henni leyndri, studdu við bakið á þeim. Það er hins vegar mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að sú staðreynd að hér var einvörðungu um sálfræðilegan hernað að ræða – og nokkuð árangursríkan í ljósi viðbragða Írana – þýðir ekki að Ísrael muni ekki ráðast á Íran. Annað hefur ekkert endilega með hitt að gera.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .