Peter Robinson vann í sex ár í Hvíta húsinu í Washington DC, fyrst sem ræðuhöfundur fyrir George H. W. Bush varaforseta og svo fyrir Ronald Reagan forseta. Robinson skrifaði eina af frægustu ræðum Reagans, sem flutt var í Berlín í júní 1987. Robinson er í viðtali í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember síðastliðinn.

Eitt merkilegasta verk Robinson meðan hann vann í Hvíta húsinu var ræða sem hann skrifaði fyrir Reagan sumarið 1987. Reagan var að fara í opinbera heimsókn til Vestur-Berlínar og átti að flytja ræðu við Brandenborgarhliðið. Robinson fékk það verkefni að skrifa þessa ræðu.

„Einu fyrirskipanirnar sem ég fékk í byrjun voru að skrifa 30 mínútna ræðu sem 30-40.000 Berlínarbúar myndu hlýða á. Ég fór til Berlínar nokkrum vikum fyrr til að vinna undirbúningsvinnuna. Ég fór að Brandenborgarhliðinu og horfði yfir múrinn. Það var mjög áhrifamikið og þrúgandi. Þarna voru verðir, varðhundar og byggingar sem enn voru skemmdar eftir stríðið. Umferð var lítil og allt frekar dapurlegt, sérstaklega í samanburði við Vestur-Berlín sem var lifandi vestræn borg.“

Viðkvæm samskipti austurs og vesturs

Robinson fór svo í bandaríska sendiráðið í Berlín og fékk frekari fyrirmæli. „Þar vissu menn nákvæmlega hvað ætti ekki að segja. Samskipti austurs og vesturs voru viðkvæm. Ekki nefna vegginn því Vestur-Berlínarbúar voru orðnir vanur honum. Ekki láta Reagan líta út eins og öfgafullan andkommúnískan kúreka.“ Þetta sama kvöld borðaði Robinson kvöldmat með nokkrum Berlínarbúum.

„Ég spurði þau hvort þau væru orðin vön múrnum, og þögnin var ærandi. Einn maður benti til austurs og sagði að systir hans byggi í fimm hundruð metra fjarlægð, en hann hefði ekki séð hana í tuttugu ár. Ein kona sagði að ef Gorbatsjov væri alvara með glasnost-stefnu sinni myndi hann rífa múrinn.“ Robinson fór heim og skrifaði ræðuna og þar varð hin fræga setning „Herra Gorbatsjov, rífðu þennan múr niður“, til.

„Ég sagði Reagan að fólk hinum megin múrsins myndi heyra það sem hann sagði og ef veðrið væri gott myndi fólk heyra hana í Moskvu. Að því loknu spurði ég hann hvort það væri eitthvað sem hann myndi sérstaklega vilja að þau heyrðu. Hann sagðist vilja halda kaflanum um múrinn.“

Nánar er rætt við Robinson í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Hér má sjá ræðu Reagan. Setningin birtist á mínutu 11:50.