Einn af stærstu kröfuhöfum föllnu íslensku bankanna, og sá sem fékk langmesta umfjöllun fjölmiðla, var vogunarsjóðurinn Davidson Kempner. Flestar fjárfestingar sjóðsins fóru fram í gegnum skúffufyrirtækið Burlington Loan Management fékk forsvarsmaður sjóðsins, Jeremy Lowe, viðurnefnið „Herra Ísland“ vegna umsvifa sinna hér á landi. Kjarninn sagði á sínum tíma að „Herra Ísland“ væri valdamesti maður landsins og var honum gjarna lýst sem eins konar skuggastjórnanda.

Viðskiptablaðið hefur þegar fjallað um frábæra afkomu vogunarsjóðanna Baupost og Eton Park á fjárfestingu sinni í kröfum á íslensku bankana. Þrátt fyrir að Davidson Kempner hafi verið risastór kröfuhafi í fyrstu kröfuskrám þurfti sjóðurinn þó að sætta sig við talsvert lakari afkomu en hinir tveir.

Hélt flestum kröfum fram að nauðasamningum

Burlington var stofnaður í apríl 2009 og samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg eignaðist Davidson Kempner kröfur sínar á íslensku bankana það ár og þ.a.l. ekki strax eftir hrun. Ef kröfurnar eru reiknaðar yfir á raunvirði átti Davidson Kempner kröfur að verðmæti 53,8 milljarða króna við útgáfu fyrstu kröfuskráa, rúmlega tvöfalt minna en áðurnefndur Baupost. Davidson Kempner bætti við sig kröfum árið 2012 og átti mest kröfur upp á 400 ma.kr. að nafnvirði. Við nauðasamninga hafði losað sig við allar kröfur á Kaupþing en átti enn kröfur upp á u.þ.b. 330 milljarða á hina bankana.

Ólíkt Baupost og Eton Park, sem losuðu sig fyrr við kröfur sínar, tók Davidson Kempner á sig gríðarháan fórnarkostnað með því að halda kröfum sínum að mestu leyti allt til nauðasamninga. Verð krafna hélst nokkurn veginn það sama frá árinu 2010 og fram að nauðasamningum í tilfelli Kaupþings og Glitnis og því fékk sjóðurinn í raun enga ávöxtun á kröfurnar yfir langt tímabil.

Tap m.v. 15% ávöxtunarkröfu

Í ljósi fónarkostnaðarins og þeirrar staðreyndar að Davidson Kempner virðist hafa eignast kröfurnar um mitt ár 2009, þegar þær voru farnar að hækka talsvert í verði, var árleg ávöxtun sjóðsins einungis um 14,5% (m.v. væntar endurheimtur við nauðasamninga).

Ef sjóðurinn gerði 15% ávöxtunarkröfu tapaði hann einum milljarði á fjárfestingu sinni en sé ekki tekið tillit til tímavirðis peninga skilaði hún 50 milljarða króna hagnaði. Hefðu nauðasamningar nást í árslok 2012 eins og stefnt var að í upphafi hefði hagnaður sjóðsins verið umtalsvert meiri en töfin reyndist hins vegar dýrkeypt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .