Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur ráðið Hersi Aron Ólafsson sem aðstoðarmann sinn. Hersir er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og hefur lokið BA-og meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, auk prófs í verðbréfaviðskiptum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins .

Hersir tekur við starfinu af Svanhildi Hólm Valsdóttur, sem lét af störfum til að taka við framkvæmdastjórastarfinu hjá Viðskiptaráði.

Undanfarið hefur Hersir starfað sem lögfræðingur og regluvörður Ölmu íbúðafélags hf., en áður starfaði hann hjá LOGOS lögmannsþjónustu, sem fréttamaður og þáttastjórnandi í Íslandi í dag á Stöð 2 og sem blaðamaður hjá Árvakri.

Hersir hefur jafnframt verið virkur í félagsstörfum og meðal annars setið í stjórn bókaútgáfunnar Codex, gegnt starfi varaformanns Orators, félags laganema, og þjálfað ræðulið Verzlunarskóla Íslands.

Sambýliskona Hersis er Rósa Kristinsdóttir, yfirlögfræðingur Akta sjóða hf.