Fjármálaeftirlitið hefur sent frá sér nýja túlkun á lögum um sparisjóði sem ætlað er til að koma í veg fyrir að hægt sé að selja stóra eignarhluti án þess að það sé borið undir stjórnir viðkomandi sparisjóða. Greint er frá þessu í Viðskiptablaðinu í dag.

Að sögn Guðbjargar Bjarnadóttur, lögfræðings á lánasviði Fjármálaeftirlitsins, höfðu starfsmenn eftirlitsins séð slíkar tilfærslur í auknum mæli, meðal annars með stofnun eignarhaldsfélaga utan um stofnfjárhluti, og því hefði þótt rétt að bregðast við þessu með skýrri túlkun. "Við höfum orðið vör við aukinn áhuga á viðskiptum með stofnfé sparisjóða og því þótti rétt að bregðast við því með skýrri túlkun. Það er þó ekkert eitt mál sem er kveikjan að þessari útlistun hjá okkur," sagði Guðbjörg.

Í túlkun Fjármálaeftirlitsins kemur fram að nokkuð hefur borið á að aðilar hafi stofnað eignarhaldsfélög um eignarhluti sína í fjármálafyrirtækjum og á það einnig við um stofnfjáreigendur í sparisjóðum en ljóst sé að framsal stofnfjárhlutar til eignarhaldsfélags þarf að bera undir stjórn sparisjóðs til samþykkis eða synjunar. "Hins vegar hefur komið upp álitamál um hvernig beri að líta á þegar ekki er um beint framsal á stofnfjárhlutum að ræða heldur sölu á eignarhaldsfélögunum sjálfum og hvaða reglur skuli gilda um samþykki stjórnar í því sambandi," segir Fjármálaeftirlitið.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.