Breski olíurisinn BP hefur gefið út að hertar refsiaðgerðir gegn Rússlandi vegna óeirðanna í Úkraínu gæti haft slæm áhrif á afkomu fyrirtækisins, að því er fram kemur á vef BBC. Evrópusambandið fundar nú um möguleika á hertum aðgerðum gegn Rússlandi.

Alþjóðlega olíufyrirtækið BP, sem er í hópi stærstu fyrirtækja sinnar tegundar í heimi, hefur sagt að refsiaðgerðir gegn Rússum hafi hingað til ekki haft áhrif á rekstur fyrirtækisins en ef þær verði hertar geti það farið að hafa áhrif.

BP á um 20% hlut í rússneska orkufyrirtækinu Rosneft. Fyrirtækið hefur gefið út að öll röskun á sambandi við Rosneft í kjölfar mögulegra refsiaðgerða geti haft áhrif á viðskiptaáætlanir BP í Rússlandi og þar með tekjur, framleiðslu, arbærni og mannorð.