Hewlett Packard eru nálægt því að kaupa upplýsingatæknifyrirtækið Electronic Data System (EDS). Kaupverðið er á bilinu 12-13 milljarðar Bandaríkjadala samkvæmt frétt BBC. Hlutabréf í EDS hækkuðu um 27,9% í dag á meðan bréf Hewlett Packard lækkuðu um 4,7%. Hewlett Packard gaf út stutta yfirlýsingu eftir lokun markaða þar sem fyrirtækið staðfestir að það eigi í viðræðum um samruna við EDS.

Sumir greiningaraðilar eru efins um hversu skynsamlegt það er fyrir Hewlett Packard að kaupa EDS, á meðan aðrir sjá í samningnum tækifæri fyrir Hewlett Packard til að verða stórt fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum. BBC hefur eftir einum viðmælenda sinna að Hewlett Packard hafi verið að reyna að marka sér stöðu sem þjónustufyrirtæki á undanförnum árum, og að þessi kaup muni hjálpa fyrirtækinu við það.