Hagnaður bandaríska tölvurisans Hewlett-Packard jókst á öðrum ársfjórðungi og er því helst til að þakka aukinni sölu félagins utan Bandaríkjanna að sögn Reuters fréttastofunnar.

Hagnaður félagsins frá maí fram í júlí var 2,5 milljarðar Bandaríkjadala (tæpl. 208 milljarðar ísl.kr.) sem gerir um 80 cent á hvern hlut.

Hagnaður á sama tíma í fyrra var tæplega 1,8 milljarðar dala eða 66 cent á hvern hlut.

Tekjur félagsins á tímabilinu voru um 28 milljarðar dala og jukust um 10% milli ára en samkvæmt frétt Reuters má rekja tæp 70% af þeirri hækkun til sölu félagsins utan Bandaríkjanna, þá helst í Asíu.

Sala í Bandaríkjunum jókst aðeins um 3% milli ára en í Evrópu, Mið-austurlöndum og í Afríku jókst salan um 5%.