Hewlett Packard (HP) hafa samið um að kaupa upplýsingatæknifyrirtækið EDS fyrir 12,6 milljarða Bandaríkjadala samkvæmt frétt Reuters. Hlutabréf HP lækkuðu um  6,85% í dag eftir að tilkynnt var um að samningur hefði komist á, en áður höfðu þau lækkað um 5% á mánudag.

Greiningaraðilar segja yfirtökuna gefa HP betri möguleika til að ná stórum viðskiptavinum til sín og bæta samkeppnisstöðu HP gagnvart IBM. HP búast við því að samningurinn gangi endanlega í gegn síðari hluta árs 2008.

HP hafa að sögn Reuters um nokkurn tíma verið að leita leiða til að hressa upp á þjónustusvið sitt, en það skilar frekar stöðugri innkomu og góðum hagnaði, jafnvel á tímum niðursveiflu.

Tekjur af tölvutengdri þjónustustarfsemi jukust um 10,5% á heimsvísu árið 2007. IBM hafði þar af 7,2% markaðshlutdeild, en EDS hafði næstmesta hlutdeild með 3%. HP voru í fimmta sæti með 2,2% markaðshlutdeild.