*

mánudagur, 6. desember 2021
Erlent 20. desember 2019 13:01

Vogunarsjóðir heyrðu í Carney á undan öðrum

Þjónustuaðili seldi vogunarsjóðum aðgang að hljóðstreymi blaðamannafunda Englandsbanka á undan öðrum.

Júlíus Þór Halldórsson
Mark Carney hefur gegnt embætti Seðlabankastjóra Englandsbanka frá því í júlí 2013, en hann mun láta af embætti þann 16. mars næstkomandi.
epa

Þjónustuaðili Englandsbanka sem sá um að hljóðvarpa blaðamannafundum seldi markaðsaðilum sérstakan aðgang að streyminu 5-8 sekúndum á undan almennum áhorfendum. Fyrrum meðlimur peningastefnunefndar bankans segir málið kalla á afsögn rekstrarstjóra bankans. BBC segir frá.

Sýnt er beint frá fundunum með bæði hljóði og mynd. Sitthvor þjónustuaðilinn sér um mynd- og hljóðstreymin, auk þess sem annar aðili – sem ekki hefur verið nafngreindur – sér um varahljóðstreymi ef hitt skyldi bresta, sem er aðeins á undan hinu. Bankinn hefur nú lokað fyrir aðgang þjónustuaðilans sem um ræðir.

Þótt ekki hafi verið greint frá vaxtaákvörðununum sjálfum í téðum streymum, geta orð seðlabankastjóra á skýringafundunum í kjölfar ákvarðananna haft gríðarleg áhrif á fjármálamarkaði, þar sem hvert orð er grandskoðað, og jafnvel skrifuð algrím sem stunda sjálfvirk viðskipti byggt á tilteknum orðum sem þykja gefa fyrirætlanir nefndarinnar næstu misserin til kynna.

Nokkurra sekúndna forskot getur því skipt sköpum, og þess eru dæmi að gríðarlegum fjárhæðum sé varið í nettengingar og húsnæði sem næst netþjónum kauphalla til þess eins að koma slíkum sjálfvirkum viðskiptum að nokkrum millisekúndum fyrr.

Danny Blanchflower, fyrrverandi meðlimur peningastefnunefndar bankans, spyr hvort rekstrarstjóri bankans, Joanna Place, hafi vitað að aðgangur að varahljóðstreyminu hafi verið falur. Hafi hún vitað af því hljóti það að vera tilefni til afsagnar, en sömuleiðis hafi hún ekki vitað það.