Svisslendingar munu senda fulltrúa sinn á ráðstefnu nokkurra ríkja um skattaskjól sem haldin verður í Berlín í Þýskalandi í næsta mánuði.

Þessi ákvörðun var tekin eftir að gestgjafinn, þýska ríkisstjórnin sendi formlegt boð til ríkisstjórnar Sviss en Þjóðverjar hafa hingað til gengið hvað harðast Evrópuríkja í gagnrýni sinni á svissneska bankakerfi. Sem dæmi má nefna að í fyrra gekk einn aðstoðarmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands svo langt að kalla Sviss „fjármálahótel fyrir svikahrappa“ – sá þurfti reyndar að biðjast afsökunar á orðum sínum.

En það verður ekki af Þjóðverjum tekið að þeir eru harðir andstæðingar svokallaðra skattaskjóla og hafa ítrekað stutt við samtök og stofnanir sem berjast gegn skattsvikum og á fundi 20 helstu iðnríkja heims (G20), sem haldinn var í Lundúnum s.l. apríl, tókst þeim að fá fundinn til að samþykkja ályktun gegn skattaskjólum almennt og þá var Sviss talið með á lista þeirra ríkja sem myndu fá sent afrit af ályktuninni, að því er fram kemur á vef Bloomberg fréttaveitunnar.

Delphine Jaccard, talsmaður svissneska fjármálaráðuneytisins staðfesti í gær að Svisslendingar myndu senda fulltrúa sinn á ráðstefnuna en fjölmiðlar í Evrópu hafa ýjað að því að vegna stirðleika milli ríkjanna tveggja í þessu máli myndu þeir hunsa fundinn.

Ráðstefnan nú er haldin í framhaldi af samráðsfundi Frakka og Þjóðverja, sem haldinn var í París í október síðastliðnum, en bæði þessi ríki hafa ítrekað lýst því yfir að þau gruni hóp þegna sinna um að „fela“ fjármagn í skattaskjólum, þ.m.t. Sviss – og í framhaldinu af því lögðu leiðtogar þjóðanna til að búinn yrði til svokallaður svartur listi yfir þau ríki sem talin eru veita skattaskjól.

Hafa ber í huga að um tvö þúsund milljarðar Bandaríkjadala, í formi erlendra innistæðna, liggja á bankareikningum einkarekinna banka í Sviss. Svisslendingar munu, á næstu misserum, þurfa að gefa einhver afslátt af frægri bankaleynd sinni og sýna samstarfsvilja meðal G20 ríkjanna ella eiga það á hættu að vera beittir einhvers konar refsiákvæðum. Nú þegar hefur svissneska ríkisstjórnin lýst því yfir að hún muni vinna að samkomulagi við önnur ríki og meðal annars taka upp alþjóðareglur um millifærslur. Alls þurfa Svisslendingar að skrifa undir 12 sáttmála við önnur ríki, ætli þeir sér að sleppa við frekari aðgerðir annarra ríkja.

Ekki eru allir á eitt sáttir við mögulegt afnám bankaleyndar í Sviss. Viðmælendur Bloomberg telja að Svisslendingar eigi að halda óbreyttu plani en vinna í því að þvo af sér skattaskjóls-stimpilinn, eins og einn þeirra orðar það.

„Hún [bankaleyndin innsk.blaðamanns] er það sem gerir Sviss að Sviss. Án hennar kemur bara einhver annar og býður upp á slíka þjónustu þannig að Svisslendingar hafa öllu að tapa í þessu máli,“ segir annar, þó ónefndur, viðmælandi Bloomberg.

Barátta bandarískra skattayfirvalda við svissnesk stjórnvöld hafa verið í kastljósinu síðasta árið en skattayfirvöld vestanhafs hafa sakað, og meira að segja handtekið, starfsmenn svissneska bankans UBS með starfsstöð í Bandaríkjunum en þeim er borið að sök að hafa hjálpað bandarískum þegnum að skjóta undan fé, meðal annars til Sviss, til að forðast skattgreiðslur.