Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur sett nýja reglugerð sem kveður á um menntun, réttindi og skyldur heyrnarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Þessi reglugerð felur í sér löggildingu stéttarinnar hér á landi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.

Ákvörðun ráðherra um löggildingu heyrnarfræðinga er byggð á tillögu starfshóps sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði í ágúst á síðasta ári til að fara yfir þjónustu einstaklinga með heyrnarskerðingu og talmein.

Starfshópurinn taldi brýnt að gera heyrnarfræðinga að löggiltri heilbrigðisstétt, til að tryggja gæði þjónustunnar sem þeir veita.

Hér á landi er skortur á heyrnarfræðingum samanborið við nágrannalöndin. Talið er að löggildingin gæti orðið til þess að nemendum í heyrnarfræði fjölgi og að íslenskar menntastofnanir taki upp menntunarbraut í heyrnarfræði.