Hryðjuverkasamtökin Hezbollah, sem eru með höfuðstöðvar í Líbanon, eru í mjög alvarlegum fjárhagslegum vandræðum, samkvæmt upplýsingum frá frönsku leyniþjónustunni, en greint er frá þessu í franska blaðinu Le Figaro. Frá því að uppreisnin í Sýrlandi hófst í vor hefur stjórn Bashar Assads dregið mjög úr fjárframlögum til Hezbollah og þá hafa framlög frá Íran minnkað um fjórðung, m.a. vegna harðnandi efnahagslegra refsiaðgerða gegn Íran.

Versnandi fjárhagsstaða Hezbollah hefur orðið til þess að sumir meðlimir samtakanna eru farnir að stunda eiturlyfjaviðskipti, en í síðustu viku gáfu bandarísk stjórnvöld út ákæru á hendur líbönskum manni, sem sagður er stjórna eiturlyfjagengi með tengsl við Hezbollah.

Þá hefur spilling innan hryðjuverkasamtakanna einnig sitt að segja um stöðuna. Samkvæmt frétt Le Figaro mun yfirmaður fjárfestingasviðs samtakanna hafa skotið undan 1,6 milljarði dala, andvirði um 195 milljarða króna.

Aðalritari Hezbollah, Hassan Nasrallah, er hins vegar ekki í neinum vafa um hverjum beri að kenna um bága fjárhagsstöðu hryðjuverkasamtakanna. Í ræðu í Beirút fyrir tveimur vikum síðan sagði hann að konur í Hezbolla væru orðnar of borgaralegar og væru að eyða of miklu af fé Hezbolla í vitleysu.