Gengi hávaxtamynta styrktist á gjaldeyrismörkuðum í gær og gengi lágvaxtamynta eins og jensins og svissneska frankans veiktist. Samfara þessu var vart við hækkanir á gengi hlutabréfa á mörkuðum austan hafs og vestan. Hagtölur sem birtust í gær styrktu jafnframt væntingar um að vextir myndu hækka á evrusvæðinu og lækka í Bandaríkjunum fyrir árslok.

Þetta þykir til marks um að jafnvægi sé að komast á markaði eftir hræringar undanfarinna daga sem hafa einkennst af flótta fjárfesta úr skuldabréfum fyrirtækja og hlutabréfum yfir í öruggari eignir eins og ríkisskuldabréf. Þróunin á gjaldeyrismörkuðum bendir til þess að fjárfestar séu reiðubúnir til þess að stunda áframhaldandi vaxtamunarviðskipti þrátt fyrir vaxandi áhættufælni.

Gengi gjaldmiðla eins og sterlingspunds og nýsjálensks dals styrktist gegn Bandaríkjadal í viðskiptum í gær og að sögn sérfræðinga er það til marks um að ró sé að færast yfir markaðinn og um endurnýjaðan áhuga á vaxtamunarviðskiptum. Hræringar síðustu daga voru meðal annars drifnar áfram af væntingum um að vinda hefði tekið ofan af vaxtamunarviðskiptum en teikn eru á lofti að um að þetta sé að breytast. Breska blaðið Financial Times hefur eftir sérfræðingum á markaði að leiðréttingar síðustu daga geri slík viðskipti á ný áhugaverð. Thomas Stolper, sérfræðingur hjá Goldman Sachs, telur til að mynda að nú felist tækifæri í að taka stöðu í evru gegn japanska jeninu. Haft er eftir honum í Financial Times að minni hræðsla um að áhrif ástandsins á bandaríska fasteignamarkaðnum kunni að smita út frá sér til annarra hagkerfa kunni að gera það að verkum að eftirspurn eftir áhættusamari eignum kunni að vaxa á ný.

Horft til olíugjaldmiðla
Flestir telja þó að leiðréttingar á mörkuðum hafi verið þörf og að fjárfestar hafi vanmetið verðlagningu á áhættu á stöðutökum eins og til að mynda í áhættusömum fasteignalánum (sub-prime mortgage) í Bandaríkjunum. Hinsvegar benda margir á að hagvöxtur í alþjóðahagkerfinu sé það mikill að markaðir komir til með standa sig vel. David Simmonds hjá Royal Bank of Scotland segir að vöxtur í alþjóðahagkerfinu geri það að verkum að undirliggjandi eftirspurn eftir eignum eins og hlutabréfum muni vera mikil og áhrif aukinnar áhættufælni muni því verða takmörkuð nema vísbendingar um samdrátt í hagvexti í heiminum komi fram. Hinsvegar bendir hann á að hræringar á mörkuðum undanfarinna daga séu djúpstæðar og muni takmarka endurnýjaðan uppgang á mörkuðum og að aukning á vaxtamunarviðskiptum muni ekki vera hastarleg. Hann telur að þetta geri að verkum að ekki sé ráðlegt að stökkva of snemma um borð í vaxtamunarlestina en hinsvegar séu tækifæri til staðar. Hann nefnir sérstaklega norsku krónuna og kanadíska dalinn í þeim efnum sökum styrkra efnahagsstoða í þeim hagkerfum og hins háa olíuverðs.