Moldríkir einstaklingar munu í auknum mæli sækjast eftir íbúðarhúsnæði í mikilli náttúrufegurð og þægilegu loftslagi um leið og almennt hægir á fasteignamarkaði í borgum heimsins.

Ólíkt ásókn alþjóðlegra fjárfesta í íbúðir í helstu fjármálaborgum heims, þá telur matsfyrirtækið Knigt Frank í Bretlandi að í ár verði það einkum náttúrufegurð og gott loftslag sem komi til með að fá þá ríkustu til að opna budduna. Búast megi við hægari uppgangi í verðlagningu í ýmsum borgum eins og Moskvu sem nú er farin að líða fyrir þrengsli á markaðnum. Sem dæmi er nú að eiga sér stað mesti afturkippur í London síðan snemma á níunda áratugnum.

11% meðaltalshækkun 2007

Markaðsverð á íbúðahúsnæði á eftirsóttustu stöðunum í heiminum hækkaði að meðaltali um 11% á árinu 2007. Mesta hækkunin var í Antigua eða 40%, þá kom St. Jean Cap Ferrat í Frakklandi með 39% hækkun og St. Pétursborg í Rússlandi var með 38% hækkun. Knigt Frank segir ljóst að greinilega sé að hægja á markaðnum. Lækkanir séu líka staðreynd í sumum löndum eins og í Bandaríkjunum og á ákveðum svæðum á Spáni. Í ár verði það fagurt landslag og gott loftslag sem kemur helst til með að draga til sín nýja og ríka fjárfesta að mati Knigt Frank. Eru þar nefnd lönd á borð við Króatíu, Grikkland og Brasilíu ásamt eyjum í Karíbahafi. Þá muni áhuginn einnig aukast á fasteignakaupum ríka fólksins í Marrakech, næst stærstu borg Marrokkó sem líka er nefnd „Rauða borgin“.

London í efsta sæti

Í rannsóknarskýrslu Knigt Frank um fasteignamarkaðinn á heitustu fasteignafjárfestingastöðum heimsins á síðasta ári og spá fyrir þetta ár, kemur fram að miðborg London var með hæsta fermetraverðið eftir fjórða ársfjórðung 2007. Þar er verið að tala um verðlag á eignum sem eru yfir 10 milljónir punda að verðmæti, eða sem svarar rúmum 1, 4 milljörðum króna á gengi 28. apríl. Þar var meðalfasteignaverðið á besta stað 36.825 evrur á fermetra. Hafði verðið þar hækkað um 30,8% á einu ári.

Næst hæsta verðið var í borginni Corchevel í Frakklandi eða 35.000 evrur á fermetrann. Hafði verðið þar þó aðeins hækkað um 5% milli ára. Segir Knigt Frank að hækkanir þar í borg hafi einkum verið drifnar áfram af áhugasömum milljarðamæringum frá Rússlandi. Monaco sem oft hefur verið talin dýrasta fasteignaborg heims, vermdi aðeins þriðja sætið í þessari rannsókn á fasteignaverði á dýrustu stöðum í 23 miðborgum sem tilteknar voru. Þar var meðalverðið 32.500 evrur á fermetrann og hafði hækkað um 25% á tólf mánuðum.

Reyndar var Monaco dýrasta borgin til að búa í að mati Knigt Frank og 20% dýrari en London. París var í fjórða sæti á listanum með 15.500 evrur á fermetrann og 10,4% hækkun á tólf mánuðum. Þá kom Moskva í fimmta sæti með 13.250 evrur á fermetrann og 35% hækkun á milli ára. Það var samt mun minni hækkun milli ára en 2006 þegar fasteignaverðið í Moskvu hækkaði um 75% og heil 95% í St. Pétursborg. Í sjötta sæti 2007 var svo Valais í Sviss með 10.200 evru meðalverð á fermetra og 6,4% hækkun á tólf mánuðum. Aðrar borgir á listanum voru með fermetarverð undir 10.000 evrum.

Mest lækkun í Dublin

Á árinu 2007 voru ekki allar borgir svo vel settar að búa við mikla hækkun á fasteignaverði á vinsælustu stöðunum. Dublin var þannig dæmi um mestu andstæðuna, en þar hafði verðið í lok 2007 lækkað á tólf mánuðum þar á undan um -17,5% og stóð í 9.250 evrum á fermetra. Reyndar var Dublin eini staðurinn á listanum með mínustölu, en eyjan Mallorca (væntanlega borgin Palma) var þar nokkru neðar á listanum með 0% verðþróun á síðasta ári.