Á 2. ársfjórðungi þessa árs hægðist á hagvexti í Kína. Er þar um að kenna minnkandi eftirspurn eftir útflutningsvörum, hækkandi verðlagi og hækkandi lánsfjármögnunarkostnaði, samkvæmt frétt BBC.

Hagvöxtur á 2. fjórðungi var 10,1% en hann var 10,6% á 1. ársfjórðungi. Haldi hagvöxtur áfram að vera tveggja stafa tala gæti styst í að Kína fari upp fyrir Þýskaland í þriðja sæti á lista stærstu hagkerfa í heimi.

Vísitala neysluverðs í Kína hækkaði um 7,1% í júní, en hún hækkaði um 7,7% í maí.

Hagvöxtur á 2. fjórðungi var í samræmi við spár greiningaraðila og búist er við að hann haldist í tveggja stafa tölu út árið.