Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 1,9% að meðaltali milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 2009 en laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 0,8% á sama tíma.  Frá fyrra ári hækkuðu laun um 3,4% á almennum vinnumarkaði og um 3,0% hjá opinberum starfsmönnum. Sér horft á vinnumarkaðinn í heild hækkuðu regluleg laun að meðaltali 1,6% milli fjórðunga og 3,2% milli ára samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

Sé horft á þróun launa hjá opinberum starfsmönnum milli ára hækka launin í fyrsta skipti minna hjá þeim hópi en hjá fólki á almenna vinnumarkaðnum á síðasta ársfjórðungi 2009. Hækkunin frá sama fjórðungi 2008 nemur 3% en 3,4% á almenna vinnumarkaðnum. Allt frá því á öðrum ársfjórðungi 2008 hafa laun opinberra starfsmanna hækkað meira milli ára. Mest var hækkunin á milli fjórða ársfjórðungs 2008 og 2007 þegar laun opinberra starfsmanna hækkðu um 12,7% en aðeins um 6,4% á almenna markaðnum.

Laun stjórnenda hækkuðu minnst

Milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 2009 hækkuðu laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks mest eða um 2,7% en laun sérfræðinga hækkuðu  minnst eða um 1,1%.  Frá fyrra ári hækkuðu laun á bilinu -0,2% til 5,7%, mest hækkuðu laun verkamanna en minnst stjórnenda.

Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun launa í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu 2,6%. Á sama tímabili hækkuðu laun í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum um 0,6%. Frá fyrra ári hækkuðu regluleg laun mest í iðnaði um 5,0 % en laun í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð lækkuðu um 0,9% á sama tímabili.