Mjög hefur hægt á útlánavextinum undanfarna tólf mánuði eftir afar hraðan vöxt tímabilið þar á undan, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Sé leiðrétt fyrir gengis- og verðlagshreyfingum jukust heildarútlán bankanna nokkuð í maí, en þó nokkuð minna en verið hefur,? segir greiningardeildin.

Hún segir heildarútlán og markaðsverðbréf bankakerfis vera tæplega 4.188 milljarða króna í maílok, sem jafngildir 26% aukningu frá sama tíma í fyrra. Útlán til innlendra aðila voru alls 2.779 milljarða króna og jukust um 20% á milli ára.

?Dregið hefur úr útlánavexti bæði til fyrirtækja og heimila, og reyndist vöxtur útlána til fyrirtækja 28% á milli ára en útlán til heimila jukust um 16%. Geysihraður vöxtur útlána bankakerfis til heimilanna á seinni hluta 2004 og fyrri hluta 2005 skýrist raunar að mestu leyti af skuldbreytingum húsnæðislána eftir að bankarnir komu af fullum krafti inn á húsnæðislánamarkað,? segir greiningardeildin.

Erlend lántaka heimila er að aukast. ?Ef leiðrétt er fyrir gengishreyfingum má sjá að erlendar skuldir heimilanna hafa aukist allhratt frá upphafi árs 2006 og nokkur aukning virðist hafa orðið í þeim útlánum í maí þrátt fyrir hækkandi gengi krónu, en í lok mánaðarins námu gengisbundnar skuldir heimilanna við bankakerfið 86 milljörðum króna sem jafngildir tæplega 12% af heildarskuldum þeirra við banka og sparisjóði,? segir hún.

?Erfitt er hins vegar að átta sig á hlutfalli erlendra skulda af heildarskuldum heimilanna við íslenska lánardrottna, bæði vegna þess að um helmingur húsnæðislána heimila er við aðra aðila en banka, sér í lagi Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina, sem ekki lána í erlendir mynt. Á hinn bóginn hafa fjármálafyrirtæki önnur en viðskiptabankarnir verið að bjóða upp á erlend lán í síauknum mæli, auk þess sem bílafloti landsmanna er að töluverðu leyti fjármagnaður með slíkum lánum,? segir greiningardeildin.