Undanfarna mánuði hefur hægt verulega á verðlækkun íbúðahúsnæðis. Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hefur nafnverð íbúða lækkað um 2% það sem af er ári samanborið við 10% yfir sama tímabil í fyrra. Greining Íslandsbanka fjallar um húsnæðismarkaðinn í Morgunkorni sínu í dag.

Þar er bent á að sveiflur íbúðaverðs undanfarna mánuði hafi verið miklar, enda fáir samningar gerðir. Telur Greiningin að húsnæðismarkaður gæti fljótlega farið að taka við sér. Margir séu að bíða af sér óveðrið og vaxtaumhverfi sé orðið mun betra en áður. Þá hafi leiguverð hækkað, verð íbúða lækkað og ýmislegt bendi til að botni kreppunnar sé náð.

Greining Íslandsbanka segir að það sem helst virðist koma í veg fyrir að íbúðamarkaður taki við sér séu væntingar um að íbúðaverð lækki enn frekar. Þá gætir áhrifa vegna tafa á fjárhagslegri endurskipulagningu á efnahag heimilanna. Talið er ólíklegt að íbúðamarkaður taki við sér fyrr en þeirri endurskipulagningu ljúki.

Kemur fram að margir hafi valið þann kost að leigja íbúð frekar en að kaupa. Velta á íbúðamarkaði hefur dregist saman um allt að 80% frá því fyrir hrun og raunlækkun íbúðaverðs nemur tæpum 40% frá hápunkti í ársbyrjun 2008.