Alþjóðabankinn gerir ráð fyrir að nokkuð hægi á hagvexti í heiminum á næsta ári eftir myndarlegan vöxt undanfarin misseri en þó telur bankinn horfur fremur góðar í heimsbúskapnum næsta kastið, segir Greiningardeild Glitnis.

Í nýútkominni hagspá fyrir lönd heims nefnir bankinn að þrátt fyrir hátt verð á hrávörum, hækkandi skammtímavexti og stutt skeið óróa á fjármálamörkuðum í vor hafi vöxtur í heiminum aukist á fyrri hluta þessa árs. Raunar hafi undanfarin fimm ár verið tímabil mikils hagvaxtar í þróunarríkjum, ekki síst vegna hagstæðra skilyrða á fjármagnsmörkuðum og þetta hafi leitt til þenslu víða um heim, segir Greiningardeildin.

Við þeirri þróun hafa svo ýmsir helstu seðlabankar brugðist með auknu aðhaldi í peningamálum sem er ein ástæða þess að nú dregur úr vexti að mati Alþjóðabankans. Talar bankinn um mjúka lendingu heimsbúskaparins í þessu sambandi.


Í spá Alþjóðabankans er raunar bent á að þótt mjúka lendingin sé líklegust eru þó blikur á lofti og óvissan í spánni fremur til minni vaxtar en meiri. Nefnir bankinn þar fjóra áhættuþætti til sögunnar. Í fyrsta lagi getur ofhitnun orðið og verðbólga farið úr böndum víða um heim eftir langt skeið mikils slaka á peningamörkuðum. Slík þróun myndi auka hættu á slæmum skelli þegar til lengdar lætur.

Einnig er mögulegt að snörp leiðrétting verði á húsnæðisverði eftir hraðan vöxt í ýmsum hátekjulöndum, sér í lagi í Bandaríkjunum, sem myndi kalla samdrátt yfir viðkomandi lönd og smita út í alþjóðahagkerfið. Í þriðja lagi nefnir bankinn viðskiptahalla Bandaríkjanna, sem er nú 6,5% af landsframleiðslu. Þessi halli skapar þrýsting á gengi dollarans og ef hann veikist snögglega gæti afleiðingin orðið órói á gjaldeyrismörkuðum. Að lokum sé ekki hægt að útiloka áfall í formi snöggs samdráttar á olíuframboði, segir Greiningardeildin


Bankinn spáir háu hrávöru- og orkuverði næsta kastið þótt gert sé ráð fyrir að verð láti eitthvað undan síga eftir hraða hækkun undanfarið. Er gert ráð fyrir að olíuverð lækki hægt og sígandi og verði að meðaltali 53 dollarar tunnan árið 2008, en það stendur nú í rúmum 62 dollurum. Spá Alþjóðabankans fyrir álverð er á svipuðum nótum: 2.300 dollarar tonnið á næsta ári og 2.100 dollarar árið 2008. Álverð er nú rúmlega 2.800 dollarar fyrir hvert tonn.