Það sem af er ári hefur lítillega hægt á útlánavexti ýmissa lánafyrirtækja þrátt fyrir að útlánavöxturinn hafi aukist nokkuð í júní og júlí, segir greiningardeild Glitnis.

?Tólf mánaða vöxtur útlána þessara lánafyrirtækja var 26,4% í júlí. Var það um 1,5% hægari vöxtur en í júní og tæplega 7% hægari en í upphafi árs,? segir hún. ?Með ýmsum lánafyrirtækjum flokkast þau lánafyrirtæki sem ekki eru innlánastofnanir svo sem Íbúðalánasjóður, fjárfestingabankar og eignaleigufyrirtæki,? segir greiningardeildin.

Samtals námu útlán ýmissa lánafyrirtækja 941 milljarða króna í júlílok. Þar af vega lán til heimila þyngst eða rúmlega 452 milljarða króna en stærsti hluti þeirra lána eru lán Íbúðalánasjóðs. Lán til almennra fyrirtækja námu 218 milljarða króna og 153 milljarða króna lán til fjármálafyrirtækja.

?Útlánavöxtur til heimila hefur verið nokkuð stöðugur undanfarið ár mældur sem tólf mánaða breyting, eða á bilinu 9%-15%. Lán til fyrirtækja eru hins vegar aðeins tæplega 2% meiri en þau voru fyrir ári. Þær tegundir útlána sem skýra vöxt útlána þessara lánafyrirtækja eru ríflega 104 milljarða króna útlánaaukning til fjármálastofnana, einnig vega útlán til heimila nokkuð þungt og lán til erlendra aðila hafa aukist um 74% á tímabilinu eða um sem nemur 26 milljarða króna,? segir greiningardeildin.

Hún segir að undanfarið hefur þróun á fjármálamörkuðum verið í þá átt að fjármagn er dýrara og líklegt að aðgengi að því versni. ?Verðtryggðir innlendir langtímavextir hafa hækkað nokkuð undanfarið og umrót á erlendum fjármálamörkuðum tengt húsnæðislánamarkaði í Bandaríkjunum hefur gert það að verkum að aðgengi að erlendu lánsfé hefur versnað og áhættuálag á vexti hefur hækkað töluvert. Líklegt er að ofangreindar ástæður valdi því að áfram muni draga úr útlánavexti,? segir greiningardeildin.