Hagvöxtur í Kína var 9,9% á síðasta ári en nú er áætlað að hann lækki á þessu ári í 8,9%, segir greiningardeild Landsbankans.

Reiknað er með að smám saman dragi úr hagvexti Kína þegar líður á árið og á fjórða ársfjórðungi muni hann nema 8,7%.

Í fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar, sem nær til ársins 2010, er stefnt að því að ná hagvexti niður í 7,5%.

Undanfarið hefur hægt og rólega dregið úr hagvexti í Kína þar sem ríkisstjórnin reynir að draga úr stórfelldum fjárfestingum í fasteignum sem og í einstökum atvinnugreinum, svo sem steypu- og stálframleiðslu.

Því er spáð að hagvöxtur á heimsvísu verði 4,3% á árinu og að kínverskir vextir haldist stöðugir.