Áætlanir Hagstofunnar sýna að landsframleiðslan á árinu 2005 varð 996 milljarðar króna og óx að raungildi um 5,5% frá fyrra ári. Þessi vöxtur kemur í kjölfar 8,2% vaxtar á árinu 2004 og 3,0% vaxtar 2003. Hagvöxturinn á árinu 2004 reyndist mun meiri en bráðabirgðatölur í september sýndu, eða 8,2% í stað 6,2%. Skýringanna er fyrst og fremst að leita í meiri fjárfestingu atvinnuveganna en áður var talið.

Vegna batnandi viðskiptakjara frá fyrra ári og minni nettó vaxta- og arðgreiðslna til útlanda uxu þjóðartekjur á árinu 2005 nokkru meira en landsframleiðslan eða um 6,7%.