OPEC ríkin spá því að samdráttur í byggingu nýs húsnæðis í Bandaríkjunum verði til þess að lítillega hægist á alþjóðahagvexti til skamms tíma á næsta ári. OPEC ríkin gefa út efnahagsspá fyrir aðildarríkin þrjátíu tvisvar á ári og spá nú 2,5% hagvexti, en í ágúst var spáð 2,9% hagvexti. Efnahagsspáin segir þá að hagvöxtur muni aukast í 2,7% árið 2008.

Aðalhagfræðingur OECD ríkjanna, Jean-Philippe Cotis, segir að ekki sé um að ræða verulega hægingu á alþjóðahagvexti, heldur horfi við afrétting hagvaxtar á meðal OECD ríkjanna. Hann segir að þó að uppsveiflu á evrusvæðinu megi vænta í kjölfar þess að hægt hefur á hagvexti í Bandaríkjunum og Japan, nægi það ekki til að koma í veg fyrir litla og skammlífa hægingu á hagvexti í OECD ríkjunum árið 2007.

OECD hefur lækkað hagvaxtarspá í Bandaríkjunum fyrir árið 2007 niður í 2,4%, samanborið við 3,1% í maí. Hagvaxtarspá á evrusvæðinu var hækkuð um 0,1 prósentustig í 2,2%. Hagvaxtarspár í Japan, Bretlandi og Kanada voru lækkaðar, en hagvaxtarspár fyrir Þýskaland og Ítalíu voru hækkaðar.

Cotis segir að verðbólga hafi haft meiri áhrif í Bandaríkjunum heldur en í meðaltali OECD ríkjanna vegna ástandsins í orkugeiranum þar í landi, en bætti við að ef spá þeirra um lítillega hægingu hagvaxtar gengi eftir væri ekki þörf á frekari stýrivaxtahækkunum þar í landi. Í skýrslunni er varað við frekari stýrivaxtahækkunum í Japan, þar sem verðhjöðnunartímabili væri ekki lokið enn og að tekið hafi lengri tíma að ná verðstöðugleika en talið var. Mælt er með frekari hækkunum stýrivaxta á evrusvæðinu þar sem efnahagsbatinn sé nú nægilega öflugur til að réttlæta það.

Í skýrslunni er varað við hækkandi húsnæðismörkuðum á þróaðri efnahagssvæðum og segir að húsnæðisverð sé að verða ósjálfbært í Bandaríkjunum, Danmörku, Frakklandi og á Spáni. Þó að sagan sýni að erfitt sé að leiðrétta húsnæðisverð, segjast höfundar skýrslunnar bjartsýnir á að hægja taki á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum, að hluta til vegna þess að heimilin séu reiðubúin til að mæta samdrætti. Í sérstökum kafla um aukna skuldasöfnun heimilanna síðastliðinn áratug, segir að heimili í lægri tekjuflokkum séu berskjölduð, en yfir höfuð sé staða heimilanna stöðug og greiðslubyrði hófleg.