Høgni Hoydal, sem fer með utanríkismál í færeysku landsstjórninni, ræddi viðskipta-, mennta og utanríkismál á fundi sem hann átti með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra í gær.

„Okkur er það mikill heiður að Hoydal skuli heimsækja Ísland fyrst landa í nýju embætti,” sagði Ingibjörg Sólrún, en þetta er fyrsta erlenda heimsókn Hoydal frá því að hann tók við í kjölfar kosninga í Færeyjum sem haldnar voru í janúar sl.

Starfsystkinin ræddu uppbyggingu utanríkisþjónustu Færeyja, um Hoyvíkur-samninginn, sem er viðskiptasamningur Íslands og Færeyja, um áframhaldandi stuðning Íslands við þá ósk Færeyinga að verða aðilar að EFTA, nemenda- og kennaraskipti á öllum skólastigum og loðnuveiðar, svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins.