Þegar þetta er skrifað og búið er að telja mikinn meirihluta atkvæða í dönsku þingkosningunum í dag er ljóst að hægri flokkarnir undir forystu Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra hafa sigrað. Nýjustu tölur hjá danska ríkissjónvarpinu benda til að flokkarnir á bak við forsætisráðherrann séu komnir með 94 þingmenn og stjórnarandstaðan 81 þingmann. Þetta er meiri munur en útlit var fyrir samkvæmt skoðanakönnunum, sem bentu til að mjótt yrði á munum.

Helle Thorning-Schmidt, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur lýst yfir ósigri. Við það tækifæri sagðist hún hafa lofað því að sigra Anders Fogh Rasmussen, en það hafi ekki gerst. Hún sagði að Danir þyrftu meiri tíma áður en þeir mundu fela stjórnarandstöðunni ábyrgð á stjórn landsins.

Miðað við þessar tölur sigrar Anders Fogh Rasmussen sínar þriðju kosningar í röð, en hann þótti tefla djarft þegar hann boðaði til kosninga með skömmum fyrirvara, hálfu öðru ári áður en kjörtímabilið rann út. Ein af ástæðum þess að hann boðaði til kosninga nú er að líkindum sú að næsta vor eru kjarasamningar opinberra starfsmanna lausir í Danmörku og forsætisráðherrann vildi styrkja pólitíska stöðu sína. Líklegt má telja að þessi úrslit verði talin minnka óvissu og treysta efnahagslegan stöðugleika.