Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) nota nú þjónustu Google Earth til að vekja athygli á eymd milljóna manna sem dvelja nú í flóttamannabúðum á stríðshrjáðum svæðum. Um er að ræða samvinnuverkefni Google og SÞ, en notaðar eru gervihnattarmyndir, ljósmyndir, myndbandsupptökur og frásagnir viðstaddra til að gefa notendum Google Earth betri mynd af því sem fer fram á þessum ákveðnu svæðum.

Flóttamannabúðirnar sem um ræðir eru í Írak, Chad, Kólumbíu og Darfur-héraði í Súdan. Hægt er að fylgjast með aðgerðum SÞ, finna nákvæma staðsetningu flóttamannabúða og fylgjast með afleiðingum vandamálanna í nærliggjandi ríkjum.

Notendur geta skoðað nærmyndir af lífi fólks sem lifir og hrærist í búðunum. Auk þess er hægt að skoða myndbönd af atburðum sem vekja athygli, svo sem heimsókn leikkonunnar Angelinu Jolie í flóttamannabúðirnar í Darfur.

Fram að þessum degi hafa um 350 milljónir manna niðurhalað Google Earth.