Verulega hefur hægt á hækkun launakostnaðar samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun en Greining Glitnis greinir frá þessu í Morgunkorni.

Þar kemur fram að heildarlaunakostnaður í verslun hækkaði um 1% frá fyrri fjórðungi en til samanburðar þá nam hækkunin milli 3. og 4. ársfjórðungs á síðasta ári 9,6%.

Þá hækkaði launakostnaður um 0,7% í samgöngum og flutningum frá fyrri fjórðungi en í síðustu ársfjórðungamælingu nam hækkunin 9,6%.

Loks lækkaði heildarlaunakostnaður í iðnaði um 1,4% á milli fjórðunga og um 1,6% í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð.

Launakostnaður lækkar í byggingariðnaði

Á milli 3. og 4. ársfjórðungs síðasta árs hækkaði heildarlaunakostnaður í bygginga- og mannvirkjagerð um 7,8% á milli fjórðunga.

1,6% lækkun nú frá fyrri fjórðungi ber því vott um mikinn viðsnúning. Þessar tölur eru í takti við þær vísbendingar sem hafa borist þess efnis að verulega hefur hægt um í byggingaiðnaði, sérstaklega í íbúðabyggingum.

Í þjóðhagsreikningum 1. ársfjórðungs sem Hagstofan birti í morgun kemur til að mynda fram að fjárfesting í íbúðahúsnæði hafi dregist saman um 13,5% á 1. ársfjórðungi frá sama ársfjórðungi árið 2007.

Áhrif á verðbólgu

Greining Glitnis segir vísitölu launakostnaðar gefa góða vísbendingu um undirliggjandi verðbólguþrýsting sem rekja má til vinnumarkaðar þar sem hún nær utan um þann launatengda kostnað sem fyrirtækin standa frammi fyrir og er jafnframt stærsti kostnaðarliður margra fyrirtækja, sérstaklega þjónustufyrirtækja.

„Ljóst er að ef heldur áfram sem horfir mun hratt draga úr innlendum kostnaðarþrýstingi,“ segir í Morgunkorni.