Dr. Donna Shalala, rektor Háskólans í Miami og fyrrverandi heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, (1993-2001) mun halda fyrirlestur á vegum Háskóla Íslands 11. júní kl. 16:00 í Hátíðasal skólans í Aðalbyggingu.

Yfirskrift fyrirlestrarins er: THE AMERICAN PRESIDENCY; THE ELECTION OF 2008 AND HEALTH.

Þá verður dr. Shalala veitt heiðursdoktorsnafnbót frá viðskipta- og hagfræðideild skólans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Samkvæmt tilkynningu HÍ hefur Dr. Shalala yfir 25 ára reynslu sem fræðimaður, kennari og stjórnandi.

Árið 1993 skipaði Bill Clinton Bandaríkjaforseti Dr. Shalala heilbrigðisráðherra og gegndi hún embættinu í átta ár. Enginn annar heilbrigðisráðherra hefur setið lengur í gjörvallri sögu Bandaríkjanna.

„Störf hennar á þessum vettvangi voru annáluð og það orð fór af henni að vera atorkusöm, hugmyndarík og áhrifamikil. Í lok þessa tímabils var henni lýst af Washington Post sem „einn áhrifamesti stjórnandi samtímans“. Hún tekur enn virkan þátt í stefnumótun á sviði heilbrigðismála. Sem dæmi má nefna að í tíð núverandi Bandaríkjaforseta var hún skipuð með Bob Dole öldungardeildarþingmanni og fyrrverandi forsetaframbjóðanda til að stýra nefnd sem ætlað var að leggja til hvernig best væri að hlúa að hermönnum sem höfðu særst í styrjaldarátökum,“ segir í tilkynningu HÍ.

Fyrirlesturinn er öllum opinn. Áhugafólk um stjórnmál, heilbrigðismál og hagfræði er sérstaklega hvatt til þess að mæta á fyrirlesturinn.