Kennsla hefst í haust í kvikmyndafræði sem sjálfstæðri námsgrein við hugvísindadeild Háskóla Íslands og ætla Samskip að styðja námið rausnarlega með því að kosta stöðu kennara. Til að byrja með verður kvikmyndafræðin 30 eininga aukagrein á BA stigi en stefnt er að því að byggja upp framhaldsnám í greininni á næstu árum.

Styrkur Samskipa til Háskóla Íslands vegna kvikmyndafræðinámsins nemur 3,6 milljónum króna á næsta ári og var samningur þar að lútandi undirritaður í háskólaráðsherberginu í Aðalbyggingu Háskólans í dag af Páli Skúlasyni rektor og Ólafi Ólafssyni, starfandi stjórnarformanni Samskipa.

Kvikmyndin er sú listgrein sem mest ítök hefur í menningaruppeldi Vesturlandabúa en alþjóðlegi kvikmyndaiðnaðurinn veltir milljörðum dala árlega. Þótt Íslendingar hafi tekið kvikmyndinni opnum örmum fyrir réttri öld og gert hana að einum helsta afþreyingar- og menningarmiðli sínum, og þó svo að nú hafi í um aldarfjórðung verið stunduð samfelld kvikmyndagerð hér á landi, hefur skipulögð háskólakennsla á fræðasviðinu verið nær engin og aldrei hefur verið reynt að koma upp sérstakri braut í kennslugreininni á háskólastigi. Af þessum sökum hefur ekki mótast öflug hefð í kvikmyndaumræðu á Íslandi, á borð við það sem finna má í öðrum listgreinum, einkum þó auðvitað bókmenntum.

Innan bókmenntafræði- og málvísindaskorar í Háskóla Íslands hefur að vísu verið boðið upp á nokkur kvikmyndanámskeið á síðustu árum, en nú ráðgerir skorin að bjóða kvikmyndafræði sem sjálfstæða grein frá og með næsta háskólaári, þ.e. frá og með haustmisseri 2005.