Reiknivilla í matsferli Times Higher Education World University Rankings olli því að Háskóli Íslands var langtum neðar á listanum en átti að vera, en villan var leiðrétt í dag.

Háskólinn færðist upp um nánast 50 sæti, eða úr 270. sæti í 222. sæti. Þetta þýðir þá einnig að háskólinn er í þrettánda sæti yfir bestu skólanna á Norðurlöndunum samkvæmt Times Higher Education.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskólans, kynnti tíðindin fyrir starfsfólki í dag. Hann segir breytinguna vera mikla viðurkenningu á því starfi sem unnið er í Háskólanum.

„Niðurstaðan er mikil viðurkenning fyrir alla þá sem starfa hér og nema. Þá má ekki gleyma einkar öflugum samstarfsaðilum innanlands og utan sem gera hann enn betri, s.s. Landspítalanum, Íslenskri erfðagreiningu, Hjartavernd, Matís og alþjóðlegum samstarfsháskólum,“ segir Jón Atli.