Alþjóðahagkerfið gæti verið að sigla inn í alvarlegri fjármálakreppu heldur en flestir hafa fram til þess reiknað með. Það er auk þess raunverulegur möguleiki á því að stærstu hagkerfi heimsins muni í kjölfarið ganga í gegnum verðhjöðnunarskeið.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu Alþjóðagreiðslubankans (e. BIS - Bank for International Settlements) sem birtist fyrr í dag.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Alþjóðagreiðslubankinn hefur sent frá sér slík varnarorð. Fyrir aðeins ári síðan kom bankinn fjármálamörkuðum í opna skjöldu þegar hann varaði við því að við gætum brátt staðið frammi fyrir sambærilegu ástandi og við upphaf kreppunnar miklu í Bandaríkjunum.

Þetta hefur því miður reynst óþægilega nákvæmur spádómur.

Alþjóðagreiðslubankinn er heldur ekki hvaða stofnun sem er – heldur sjálfur seðlabanki seðlabankanna. Sú svartsýna mynd sem bankinn dregur upp af ástandinu á fjármálamörkuðum vekur því óhjákvæmilega meiri athygli en ella.

Í skýrslunni varar bankinn við því að undirmálslánakrísan vestanhafs hafi endurspeglað vaxandi skuldsetningu – bæði heimila og fyrirtækja – ríkustu þjóða heims á undanförnum árum, sem gæti brátt markað upphafið að alvarlegri niðursveiflu í alþjóðahagkerfinu.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins á morgun.

Áskrifendur geta, frá klukkan 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .