Hibernia Atlantic sæstrengsfyrirtækið hefur klárað lagningu á sæstreng til Norður Írlands sem að sögn Bjarna K. Þorvarðarsona, forstjóra félagsins, er mikilvægur áfangi í sæstrengsuppbyggingu félagsins. Sæstrengurinn var tekin í landi á ströndinni Co Antrim við bæinn Portrush á Norður Írlandi og er fyrsta tenging þeirra við Bandaríkin með þessum hætti.

Sæstrengurinn er hluti af verkefni upp á 25 milljónir punda sem nú er í framkvæmd. Hibernia Atlantic hefur gengið frá samningi um beina tengingu Norður-Írlands við Evrópu og Ameríku. Byggt verður upp net á Norður-Írlandi sem tengt verður við sæstreng Hibernia. Strengurinn verður lagður fyrir fjármuni sem að hluta til koma úr sjóðum Evrópusambandsins en Hibernia mun eiga, reka og selja þjónustu í gegnum strenginn.

Móðurfélag Hibernia-fyrirtækjanna, Hibernia Group ehf., er íslenskt en félagið rekur nú sæstrengi og fjarskiptakerfi sem ná yfir 25 þúsund kílómetra og tengja saman um 40 af stærstu borgum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Félagið hóf starfsemi sína 2003 um það leyti sem Kenneth Peterson, stofnandi Norðuráls, fór af krafti út í fjarskiptarekstur en félagið átti um tíma 40% eignarhlut í Og Vodafone á Íslandi.