Fiskur er auðlind fortíðarinnar og er jafnframt auk orkunnar auðlind nútímans. Þessar mikilvægu auðlindir munu auk þess tvímælalaust vera mikilvæg stoð íslenska hagkerfisins um ókomna tíð. Ísland býr þó yfir að minnsta kosti einni stórri auðlind til viðbótar. Auðlind sem hæglega gæti orðið sú allra mikilvægasta hér á landi á næstu áratugum. Hér er átt við drykkjarvatn en hreint vatn er víða um heim orðin skortvara. Margir muna eflaust að fyrir nokkrum árum var mikill vatnsskortur í Barcelona á Spáni, og átti það ekki eingöngu við um drykkjarvatn. Ástandið varð svo alvarlegt að flytja þurfti vatn í tankskipum til borgarinnar. Annað dæmi er að í Svíþjóð kom það fyrir í fyrra að fólk var beðið um að vökva ekki garða sína á sumrin þar sem vatnsskortur vill vera viðvarandi vandamál í landinu á sumrin. Þrátt fyrir þetta er Svíþjóð langt fyrir ofan miðju á lista tölfræðivefjarins Nationmaster yfir þau lönd sem eiga hvað mestar vatnsbirgðir á mann.

Mestar birgðir

Íslenskt vatn þykir með því besta í heimi enda er það almennt hreint og tært. Ísland á líka langmestar vatnsbirgðir allra þjóða í heimi hér, miðað við höfðatölu, en í nýlegri umfjöllun bandaríska tímaritsins Newsweek um málið kemur fram að vatnsbirgðir Íslendinga séu tæplega 124 þúsund rúmmílur á hvern íbúa landsins. Næst á listanum kemur S-Ameríkuríkið Gyana með 76 þúsund rúmmílur og þar á eftir Súrínam, sem er nágrannaland Gyana, með 55 þúsund rúmmílur á íbúa.

Þess má þó geta að listi Newsweek rímar ekki alveg við lista Nationmaster en þar er Gabon, á vesturströnd Afríku, sagt búa yfir næstmestum birgðum og Papúa Nýja Gínea yfir þriðju mestu birgðunum. Aðalatriðið er þó að samkvæmt báðum listum eru vatnsbirgðir Íslendinga mestar. Samkvæmt skýrslu sem bandaríski risabankinn og Íslandsvinurinn JP Morgan vann snemma árs 2008 eru um 97,5% vatnsbirgða heimsins saltvatn, sem er ódrekkanlegt.

Eins og nærri má geta eru þau 2,5% sem eftir eru mjög eftirsótt enda er aðgengi að drykkjarhæfu vatni einn þeirra þátta sem fyrst er litið til þegar velmegun landa og þróunarstig þeirra eru metin. „Miðað við þróun síðustu ára er líklegt að árið 2025 muni veruleg vandræði myndast á vatnasvæðum sem eru mikilvæg stærri hagkerfum, svo sem Bandaríkjunum, Mexíkó, V-Evrópu og Kína, þar sem neysla er mun meiri en endurnýjun birgða. Sérstaklega má gera ráð fyrir að skortur verði mikill í S-Afríku, norðvesturhluta Indlands og norðurhluta Kína,“ segir í skýrslu JP Morgan. Það eru því engar ýkjur að vatn verði auðlind framtíðarinnar, sannkallað glært gull, og hefur því heyrst fleygt að næsta stóra stríð í heiminum verði um vatn þó auðvitað sé erfitt að fullyrða um slíkt.

Ört vaxandi markaður

Árið 2008 var markaðurinn fyrir flöskuvatn um 132,6 milljarðar lítra en samkvæmt gögnum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum er því spáð að árið 2013 verði hann orðinn 181,2 milljarðar lítra. Markaðurinn vex því ört og hæglega má gera því skóna að eftir því sem vatn verður eftirsóttari vara muni verð hækka. Sömuleiðis er líklegt að gæðavatn verði enn dýrara. Af þessu má ráða að vatnsauðlindin gæti reynst hin dýrmætasta þegar fram í sækir, sannkallað glært gull. Sem kunnugt er hafa íslensk fyrirtæki verið að auka umsvif sín í átöppun og útflutningi vatns en stofnkostnaðurinn við slíkan iðnað er talsverður. Aðspurð um hvort hið opinbera muni á einhvern hátt geta liðkað fyrir slíkri fjárfestingu segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra það skipta mestu máli að vatnsauðlindin verði metin að verðleikum og að við nýtingu hennar skapist sem flest störf.

Hi„Vinna að opinberri stefnumótun varðandi erlenda fjárfestingu stendur nú yfir og þingsályktunartillaga þess efnis verður lögð fram á Alþingi í haust,“ segir Katrín og bendir aukinheldur á ívilnanalög sem samþykkt voru á síðasta ári.