Tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga í formi skattheimtu á verðmætasköpun sjávarútvegsfyrirtækisins HB Granda námu samtals 6,6 milljörðum króna árið 2013. Kemur þetta fram í útreikningum KPMG á skattaspori fyrirtækisins sem Morgunblaðið greinir frá.

Þar kemur fram að útreikningarnir byggist á gjaldfærðum sköttum fyrirtækisins, sem voru 4.452 milljónir króna á árinu 2013, og innheimtum sköttum og gjöldum, m.a. tekjuskatti og útsvari starfsmanna, sem námu 3.266 milljónum króna. Þá reiknast inn í skattasporið greiðslur starfsmanna til lífeyrissjóða, sem námu 1,1 milljarði króna, og nam skattaspor fyrirtækisins því 7,7 milljörðum króna.

Jónas Guðbjörnsson, fjármálastjóri HB Granda, segist í samtali við Morgunblaðið telja að skattaspor fyrirtækisins fyrir árið 2014 sé hærra en árið 2013 þrátt fyrir minni úthlutun í loðnu.