Rétt rúmur mánuður eru síðan sjómenn samþykktu kjarasamning. Þegar samningar loks náðust hafði verkfall sjómanna staðið yfir í rúma tvo mánuði. Nú eru enn á ný blikur á lofti í kjaramálum því á næstu níu mánuðum losna tæplega 40 kjarasamningar. Á meðal þeirra samninga sem losna eru stórir samningar á opinbera markaðnum. Á næsta ári verða síðan um 80 samningar lausir og árið 2019 losna 160 samningar.

Læknar ríða á vaðið en samningur Læknafélags Íslands og ríkisins losnar eftir mánuð, eða 30. apríl. Síðast þegar læknar áttu í kjaraviðræðum fóru þeir í verkfall. Í lok ágúst losnar samningur Skurðlæknafélags Íslands og á sama tíma fellur gerðardómur átján aðild­ar­fé­laga Banda­lags háskóla­manna (BHM) og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga úr gildi. Gerðardómurinn er frá því í ágúst 2015. Næsta haust losna síðan samningar Kennarasambands Íslands og Félags grunnskólakennara.

Óhætt er að segja að frá árinu 2015, þegar síðustu stóru samningalotu lauk, hafi efnahagsástandið snarbatnað. Verðbólga hefur haldist undir tveimur prósentum og hagvöxtur aukist mikið, hann var 4,2% árið 2015 en 7,2% í fyrra. Kaupmáttur launa hefur einnig aukist mikið en á milli áranna 2014 og 2015 jókst kaupmáttur um tæp 8% og bráðabirgðatölur benda til þess að í fyrra hafi hann aukist um 7% frá árinu 2015. Frá aldamótum hefur hagvöxtur einungis tvisvar mælst hærri en það var árið 2004 og 2007.

Ástæður aukins kaupmáttar og hagvaxtar núna eru hins vegar allt aðrar en fyrir tíu árum. Fyrir hrun var það skuldsett einkaneysla sem dreif hagvöxtinn að stórum hluta áfram en síðustu ár hefur útflutningur og fjármunamyndun skipað veigamesta sessinn í hagvextinum.

Allt í háaloft

Framvinda kjaraviðræðna næstu mánuði skiptir miklu máli því á árinu 2018 verða um 80 kjarasamningar lausir, megnið af þeim eru samningar á almenna markaðnum. Enn og aftur er hið opinbera í bílstjórasætinu þegar kemur að því að marka launastefnu í landinu. Nú er það úrskurður kjararáðs sem sett hefur allt í uppnám en síðast voru það samningar við kennara og lækna.
Eins og einhverjir muna þá var gerður eins árs samningur á almenna vinnumarkaðnum á fyrri hluta árs 2014. Þá tókust forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) í hendur um að varðveita stöðugleika í efnahagslífinu með því að semja um 2,8% launahækkun.

Nokkrum mánuðum eftir þennan sáttasamning setti hið opinbera allt í háaloft með því að semja við kennara og lækna á allt öðrum forsendum en gert hafði verið í samningi SA og verkalýðshreyfingarinnar. Í staðinn fyrir að tala um að varðveita efnahagslegan stöðugleika var talað um réttlæti og leiðréttingu. Þetta hafði þau áhrif að þau stéttarfélög sem samið höfðu um 2,8% launahækkun og fleiri, sem voru með lausa samninga vorið 2015, miðuðu sína kröfugerð við þær hækkanir sem læknar og kennarar fengu. Afleiðingarnar urðu þær að hér logaði allt í verkföllum á fyrri hluta árs 2015.

Dauði Salek

Í þessu kristallast svolítið vandinn í kjaramálum hérlendis. Menn setjast við samningaborðið á ólíkum forsendum og hið opinbera og almenni vinnumarkaðurinn ganga ekki í takt. Það er engin samstaða um launastefnu sem leiðir til hins margfræga höfrungahlaups á vinnumarkaði.

Samningar tókust loks á almenna vinnumarkaðnum í lok maí árið 2015 en það gerðist ekki fyrr en þáverandi ríkisstjórn hafði gripið inn í og lofað ýmsum aðgerðum, eins og til dæmis í húsnæðismálum. Í ágúst sama ár kom aftur babb í bátinn þegar gerðardómur kvað upp dóm í kjaradeilu ríkisins og átján aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Gerðardómurinn kvað á um meiri launahækkanir en samið hafði verið um á almenna markaðnum, sem leiddi til þess að þar komu menn enn á ný saman. Í byrjun árs 2016 voru nýir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði undirritaðir en þeir byggðu á SALEK-samkomulaginu, sem gert var í lok október 2015.

Þó samningarnir hafi verið undirritaðir er SALEK-samkomulagið í uppnámi í dag. Skemmst er minnast orða Ragnars Þórs Ingólfssonar, nýkjörins formanns VR, á Stöð 2 fyrir nokkrum vikum. Þá sagði hann að SALEK-samkomulagið væri þegar dautt vegna þess að launafólk hefði setið eftir á meðan arðgreiðslur fyrirtækja væru miklar og stjórnmálamenn hefðu fengið launahækkanir langt umfram vinnandi fólk.

Forsendubrestur

Hér hefur verið í farið í grófum dráttum yfir þá atburðarás sem varð síðast þegar stór samningalota var framundan á vinnumarkaði. Þó staðan í efnahagsmálum sé töluvert betri í dag en hún var í byrjun árs 2014 þá er aðstæður að mörgu leyti keimlíkar.

Ríflega mánuður er síðan forsendunefnd verkalýðshreyfingarinnar og SA fundaði en það var gert vegna þess að kjarasamningur þeirra byggir á þremur forsendum sem komu til endurskoðunar í febrúar síðastliðnum. Tvær af þremur forsendum stóðust skoðun en þær sneru að annars vegar að fjármögnun stjórnvalda á almennum íbúðum og hins vegar að auknum kaupmætti. Þriðja forsendan stóðst hins vegar ekki en hún snýr að launaþróun.

Í samningum ASÍ og SA var sem sagt kveðið á um að launastefnan, sem í samningunum fólst, yrði stefnumarkandi fyrir aðra á vinnumarkaði. Svo hefur ekki verið og er helsta ástæðan sú að kjararáð ákvað í lok október að hækka laun ráðamanna í landinu, þar með talið kjörinna fulltrúa, um 44%.

Þrátt fyrir þennan forsendubrest ákvað samninganefnd ASÍ, að undangengnum fundarhöldum með baklandi stéttarfélaganna, að segja ekki upp kjarasamningunum. Í tilkynningu, sem ASÍ sendi frá sér þann 28. febrúar, segir að þessi ákvörðun hafi meðal annars verið tekin vegna þess að "lítill áhugi er á því að almenni markaðurinn fari fyrstur í þeim kjaraviðræðum sem framundan eru, en mörg opinberu félaganna eru með lausa samninga síðar á þessu ári."

Verkalýðshreyfingin brennd

Með öðrum orðum þá er verkalýðshreyfingin brennd. Hún vill ekki gera sömu mistök og fyrir þremur árum. Hún reið á vaðið á fyrri hluta árs 2014 með samningum, sem kváðu á um 2,8% launahækkun. Þeir samningar urðu hjákátlegir nokkrum mánuðum síðar þegar hið opinbera samdi við kennara og lækna um miklu meiri launahækkanir.

Eftir úrskurð kjararáðs og tómlæti ráðamanna við honum, þrátt fyrir harða gagnrýni, þá er hið opinbera í raun aftur búið að marka launastefnuna í landinu. Það verður áhugavert að sjá hvert framhaldið verður. Ríkið er að hefja kjaraviðræður við lækna, í sumar þarf að semja við 18 aðildarfélög BHM og svo kennara í haust. Væntanlega mun úrskurður kjararáðs bera á eitthvað á góma í þessum viðræðum og það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig stjórnvöld hyggjast réttlæta kjarabætur sínar.

Ekki síður verður áhugavert að fylgja með því hvort núverandi ríkisstjórn muni standa við stóru orðin en í stefnuyfirlýsingu hennar segir: "Ríkisstjórnin styður við víðtæka sátt á vinnumarkaði. Stöðugleiki á vinnumarkaði er mikilvæg forsenda jafnvægis og vaxtar í efnahagslífi."

Þess ber að geta að þó samningar á almennum vinnumarkaði losni ekki fyrr en í lok næsta árs þá verða þeir endurskoðaðir eftir 11 mánuði, eða í febrúar 2018. Forsendan sem brast síðast, þ.e. launaþróun annarra hópa, verður aftur til endurskoðunar þá. Það er því alveg hugsanlegt að ef hún stenst ekki þá verði samningum sagt upp.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .