Launavísitalan lækkaði um 0,1% milli júní og júlí samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær. Vísitalan hefur á síðustu árum átt það til að lækka á sumarmánuðum en sama staða var uppi á teningnum í júlí á síðasta ári og júní árið 2019, að því er kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Síðustu almennu launahækkanir samkvæmt kjarasamningnum voru í janúar og kjarasamningsbundnar hækkanir verða ekki aftur fyrr en í janúar næstkomandi. „Það sem af er ársins hefur verið talsverð hreyfing á launavísitölunni upp á við, en miðað við stöðuna mætti ætla að launaþróun væri á rólegum nótum um þessar mundir og staðan verði mögulega svipuð út árið,“ segir Hagfræðideild Landsbankans.

Þá bendir hún á að kaupmáttarvísitalan hefur lækkað um 1,1% frá því í janúar, þegar kaupmáttur var í sögulegu hámarki. Kaupmáttur launa hefur engu að síður hækkað um 3,4% frá júlí 2020.

Opinberi markaðurinn leiði áfram launahækkanir

Sé litið til stóru hópanna á vinnumarkaðnum frá maí 2020, mánuði eftir að kjarasamningsbundnar launahækkanir tóku gildi, til sama tíma árið 2021 má sjá að opinberi markaðurinn hafi verið leiðandi í launabreytingum. „Munurinn milli markaða virðist vera að aukast.“

Launin á almenna markaðnum hækkuðu um 5,8% á þessum tíma og um 12,4% á þeim opinbera, 10,7% hjá ríkinu og 14,5% hjá sveitarfélögunum.

Mynd tekin úr Hagsjánni.

Laun verkafólks hækkuðu um 8,4% milli ára í maí, mest allra starfsstétta á almenna markaðnum á þessu tímabili. Laun tækni- og sérmenntaðs fólks hækkuðu minnst, eða um 3,9%.

Meðal atvinnugreina á almenna markaðnum hækkuðu laun milli maímánaða 2020 og 2021 mest á veitinga- og gististöðum, um 10,5%, og áberandi minnst í fjármála- og vátryggingastarfsemi, um 3,7%. Tekjur eru með hæsta móti í fjármála- og vátryggingastarfsemi þannig að krónutöluhækkanir kjarasamninga vega almennt minna í prósentum þar en í öðrum greinum.

Hagfræðideild Landsbankans horfir síðan sérstaklega til launa í gististaða og veitingarekstri. Launin í greininni hækkuðu um 4,9% í apríl 2020 vegna áfangahækkana kjarasamninga og aftur um 4% í janúar 2021 af sömu ástæðu. Í apríl síðastliðnum hækkuðu laun í geiranum svo aftur um 3,1% án þess að um hækkanir vegna kjarasamninga væri að ræða.

„Líkleg skýring er að nauðsynlegt hafi verið að hækka laun til þess að geta mannað stöður í greininni, en á þessum tíma var einmitt nokkur umræða um að erfitt væri að fá fólk til starfa í ferðaþjónustu,“ segir í Hagsjánni.

Spá samkomulagi um lífskjarasamningana

Að lokum er bent á að launa- og forsendunefnd lífskjarasamningsins mun í næsta mánuði meta hvort forsendur um kaupmátt launa, vexti og stjórnvaldsákvarðanir, lagabreytingar og fjármögnun sem heitið var í yfirlýsingum ríkisstjórnar hafi staðist.

„Töluvert fjaðrafok var út af mati nefndarinnar á síðasta ári og náði nefndin ekki samkomulagi fyrr en á lokastundu, eftir aðkomu stjórnvalda.“

Hagfræðideildin býst þó ekki við að veruleg vandamál verði uppi að þessu sinni og útlit er fyrir að nefndin nái samkomulagi um að forsendur hafi staðist. Verði staðan sú mun lífskjarasamningurinn gilda til 1. nóvember 2022.