Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, fram þingsályktunartillögu á Alþingi í síðustu viku um fjármálastefnu næstu fimm árin á grundvelli laga um opinber fjármál. Þar er að finna töluleg markmið ríkisstjórnarinnar um þróun opinberra fjármála fram til ársins 2022 með hliðsjón af áhrifum þeirra á hagkerfið.

Hagstofan spáir áframhaldandi en hægjandi hagvexti næstu árin. Gangi hagspár eftir verður yfirstandandi hagvaxtarskeið með þeim lengstu í Íslandssögunni. Efnahagshorfur benda þó til þess að þjóðarútgjöld séu að vaxa umfram landsframleiðslu og að hin sígilda íslenska eftirspurnarþensla sé farin að láta á sér kræla í hagkerfinu.

Yfirlýst hagstjórnarlegt markmið fjármálastefnunnar er því að beita aðhaldssamri og sveiflujafnandi fjármálastefnu til að sporna við þenslunni, milda undirliggjandi verðbólgu og draga úr hættu á óstöðugleika.

Í því skyni er stefnt að því að afgangur á heildarafkomu hins opinbera nemi 1-2% af vergri landsframleiðslu (VLF) á ári. Stefnt er að hraðri lækkun skulda sem og vaxtakostnaðar þannig að heildarskuldir hins opinbera verði undir 30% af VLF árið 2019. Stöðugleikaframlögum, arðgreiðslum og öllum óreglulegum tekjum verður varið til frekari niðurgreiðslu skulda. Einnig er stefnt að því að heildarútgjöld hins opinbera vaxi ekki umfram 41,5% af VLF á tímabilinu.

Margir forystumenn í mismunandi greinum atvinnulífsins bundu miklar vonir til aukins aðhalds og aga í fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar. Þó svo að aðhald og agi sé hagstjórnarlegt markmið nýrrar fjármálastefnu samræmist stefnan ekki markmiðunum með fullnægjandi hætti samkvæmt nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA).

Stefnan magnar hagsveifluna

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé verið að búa nógu vel í haginn ef í harðbakkann slær miðað við nýframlagða fjármálastefnu. Miðað við hagvaxtarforsendur, alvarlega skuldastöðu, sívaxandi útgjöld og mikil ríkisumsvif í hagkerfinu er stefnan áhættusækin og áætlaður afgangur af rekstri hins opinbera ónægur til þess að hægt sé að bregðast við efnahagslægð og stuðla að efnahagslegum stöðugleika.

„Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir afgangi á rekstri hins opinbera í fjármálastefnunni er þetta lítill afgangur miðað við forsendurnar um áframhaldandi hagvöxt. Áætlaður afgangur miðar við samfelldan hagvöxt næstu fimm árin, á grundvelli hagspár Hagstofunnar. Stefnan treystir þannig á að núverandi hagvaxtarskeið verði það lengsta í sögu lýðveldisins eða tólf ár. Ef hagvöxtur verður prósentustigi minni á hverju ári en gert er ráð fyrir getur afgangur breyst í umtalsverð­ an halla, eins og við sýnum fram á með næmnigreiningu. Það má því lítið út af bregða,“ segir Ásdís.

Það er sérstaklega mikið áhyggjuefni í ljósi alvarlegrar skuldastöðu hins opinbera. Hið opinbera er meira en tvö­ falt skuldsettara nú heldur en í aðdraganda bankakreppunnar árið 2008. Samkvæmt áætlunum stjórnvalda verða opinberar skuldir áfram meiri en á síðasta þensluskeiði næstu fimm árin, þrátt fyrir að ráðstafa eigi stöðugleikaframlögum og arð­ greiðslum til skuldalækkunar. Að mati SA er því ekki verið að greiða niður skuldir nógu hratt og „ekkert er í hendi með ráðstöfun fjármuna til skuldalækkunar“.

Þar að auki eru engin áform í fjármálastefnunni um það að draga úr umsvifum hins opinbera í hagkerfinu.

Í krafti núverandi efnahagsuppsveiflu hefur mikill tekjuvöxtur hins opinbera skapað rými til aukinna útgjalda, sem hafa verið aukin með markvissum hætti síðastliðin ár. Í kjölfar efnahagskreppunnar var mikil fjármagnseftirspurn á ýmsum sviðum opinberrar þjónustu, „en útgjaldavöxturinn undanfarin ár hefur verið meiri en eðlilegt getur talist,“ segir í greiningunni.Útgjaldaaukningin hefur verið umtalsvert meiri heldur en í síð­ustu uppsveiflu fyrir hrun, auk þess sem útgjöld umfram fjárheimildir hafa verið talsverðar eða að meðaltali 7% frá 2010 til 2015.

Þrátt fyrir hagvöxt var einnig halli á afkomu hins opinbera milli 2008 og 2015 og því hefur ekki tekist að nýta uppsveifluna síðustu ár til að búa í haginn.

Er svo komið að umfang hins opinbera í hagkerfinu er hvergi meira innan OECD heldur en í háskattaríkinu Ísland, þar sem skatttekjur eru 34% af VLF og opinberir að­ilar ráðstafa um 42% af allri verð­mætasköpun í landinu.

„Þegar til bakslags kemur munu tekjustofnar hins opinbera dragast saman og við höfum áhyggjur af því hvernig unnt verði þá að fjármagna svo há útgjöld. Þetta getur því varla verið sjálfbær staða og það samræmist ekki fjármálastefnunni. Það veldur því áhyggjum að forsætisráðherra hafi hreykt sér af 8% útgjaldaaukningu í síðustu fjárlögum í stefnuræðu sinni og að fjármálaráðherra hafi sagt í viðtali við Viðskiptablaðið að ekki standi til að hrófla við umsvifum ríkisins.

Við erum á tímum góðæris og þá á hið opinbera að vinna gegn hagsveiflunni og skapa skilyrði til aukins stöðugleika með myndarlegum rekstrarafgangi. En í gegnum tíðina hefur hið opinbera verið að magna upp hagsveifluna með örum útgjaldavexti, og svo virðist sem það muni halda áfram,“ segir Ásdís.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .