Ræsir hf. hefur nú verið seldur. Kaupandinn er HIG ehf. sem er móðurfélag innflutnings- og þjónustufyrirtækisins Íshluta ehf. HIG ehf. keypti einnig Ræsi fasteignir hf. en það á og rekur nýjar höfuðstöðvar Ræsis sem standa við Klettháls í Reykjavík. HIG er í eigu Hjálmars Kristins Helgasonar og fjölskyldu hans. Auk þess að eiga Íshluti þá á HIG einnig Vélval ehf. sem sérhæfir sig í leigu á stórum vinnuvélum. Fyrirtækið á líka Vélafl ehf. sem er umboðsaðili fyrir Hyundai vinnuvélar hér á landi.

Í tilkynningu frá HIG segir að kaupin séu gerð með fyrirvara um að samþykki fáist á hluthafafundum fyrirtækjanna. Þar segir jafnframt að hluthafar í Ræsi og Ræsi fasteignum séu um sjötíu talsins. HIG segir markmið kaupanna það að styrkja tekjugrunn félaganna með aukinni hagkvæmni og framlegð í rekstri. Þá er stefnt að bættri nýtingu húsnæðis og starfsfólks.

Samanlagt starfa áttatíu manns innan vébanda fyrirtækjanna. Ræsir var stofnaður árið 1942 og starfaði lengst af á Skúlagötu. Nú hefur fyrirtækið verið flutt í nýtt húsnæði að Krókhálsi í Reykjavík. Ræsir sinnir alhliða þjónustu við eigendur Mercedes Benz, Mazda og Chrysler.

Starfsemi allra félaga HIG verður síðar sameinuð og færð í höfuðstöðvar Ræsis að Krókhálsi.