Kanadíska matvælafyrirtækið High Liner hagnaðist um 1,8 milljónir dala, jafnvirði um 230 milljónir íslenskra króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en fyrirtækið hagnaðist um 9,7 milljónir á sama tíma fyrra.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að tekjur jukust talsvert á milli ára. Þær fóru úr 178,8 milljónum dala í 287,6 milljónir.

High Liner keypti rekstur Icelandic Group í Bandaríkjunum í nóvember í fyrra. Þar á meðal var fiskréttarverksmiðjan Icelandic USA í Newport News í Virginíufylki ásamt tengdri innkaupa- og framleiðslustarfsemi í Asíu. Kaupverðið nam 230 milljónum dala, um 27 milljörðum íslenskra króna.

Fram kemur í uppgjöri High Liner að minni hagnaður skýrist af niðurfærslu á virði eigna og einskiptikostnaði, þ.m.t. kaupunum á eignum Icelandic Group. Án tillits til einskiptikostnaðar og kauprétta nam hagnaður High Liner 13,9 milljónum dala á tímabilinu, sem er 38,8% aukning á milli ára.

Þá er haft eftir Henry Demone, forstjóra High Liner, að kaupin hafi nú þegar skilað sínu enda vegi afkoma af rekstri þess hluta fyrirtækisins sem áður heyrði undir Icelandic Group þungt í bókum High Liner.

Fram kemur í tilkynningunni að tekjur af rekstri þess hluta sem áður tilheyri Icelandic Group ytra námu 97,2 milljónum dala á fjórðungnum. Það jafngildir 42% af heildartekjum High Liner.