High Liner, norður-amerískt matvælafyrirtæki, hefur hafið viðræður við Framtakssjóð Íslands um kaup á starfsemi Icelandic Group í Ameríku og Asíu. Samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar í Toronto, þar sem High Liner er skráð, er um 30 daga einkaviðræður að ræða, þ.e. Framtakssjóðurinn ræðir ekki við aðra aðila um sölu á starfseminni næstu 30 dagana. Þar kemur jafnframt fram að áreiðanleikakönnun standi enn yfir og að hugsanleg kaup séu háð samþykki stjórna fyrirtækjanna þannig að ekki sé enn hægt að fullyrða að af kaupum verði.

Ekki kemur fram hvert hugsanlegt kaupverð gæti orðið en IntraFish-vefurinn hefur nefnt töluna 230 milljónir dala eða um 26 milljarða króna.