Árni Hafstað, eigandi brugghússins Gæðings segir að bjórmenningin hér á landi hafi breyst á undanförnum misserum en segir það tilviljun að það hafi verið hann sem opnaði bar í Reykjavík sem sinnir þeim hluta markaðarins sem vilji fá annan bjór en þann hefðbundna.

Hvað brugghúsið Gæðing varðar þá segir Árni að það sé að verða vörumerkið þeirra að bjórinn sé óstöðugur og meira að segja uppskriftirnar haldi áfram að breytast. „Jói Grugg [bruggari Gæðings] getur ekki látið það vera að breyta uppskriftum í hvert einasta skipti. Í raun og veru er aðferðin sem við notum við ölgerðina þannig að hún gerir þetta að minna hneyskli en ef aðrir leyfa sér þetta. Þegar við skilum bjórnum í búðina þá er hann í þróun og er ennþá með lifandi gerinu í. Hann á svo eftir að breytast töluvert mikið til batnaðar þar til á einhverjum tíma þegar hann fer að hnigna. Þó að við séum að rugla aðeins með grunninn þá breytist hann hvort sem er í búðinni þannig að við höfum svigrúm til að leika okkur með.“

Svigrúm sem aðrir framleiðendur hafa þá ekki?

„Nei, ef þú leikur þér með vörumerkið þitt þá kemur þú óorði á það. Ég held að þetta sé hollt því það er ákveðinn hópur sem fyrirgefur okkur algjörlega og finnur nærveru handverksins. Að þetta sé ekki bara eitthvað sem gerist af sjálfu sér. Eins með þá sem koma í brugghúsið. „Þetta getur ekki verið brugghús,“ segir fólk sem kemur í heimsókn. Þetta er lágreist bygging. Menn sjá fyrir sér háa tanka og menn með grímur og í sloppum. En þetta eru engin stjarnvísindi. Ég er með aðra matvælaframleiðslu við hliðina þar sem ég er með mjólkurframleiðslu sem er að mörgu leyti viðkvæmari vara. Síðan er það barinn en þar held ég að við höfum hitt á bylgju sem var til en enginn farvegur var fyrir.

Ítarlegt viðtal við Árna er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.