Hlutafé í Slippnum Akureyri hefur verið aukið umtalsvert og er heildarvirði þess eftir aukningu 90 milljónir króna.  Með hlutafjáraukningunni kemur Hildingur inn sem nýr eignaraðili og verður næststærsti hluthafinn en hildingur er fjárfestingafélag í eigu KEA.

Stærsti hluthafinn er Naustatangi sem er í eigu Málningar, Fjárfestingarfélagsins Fjarðar, stjórnenda Slippsins og fleiri aðila. Auk Naustatanga og Hildings eru sjö aðilar með smærri eignarhluti í Slippnum Akureyri.

"Hildingur hefur að markmiði að fjárfesta í vænlegum fyrirtækjum þar sem tiltrú er á stjórnendum og framtíðaráformum. Slippurinn Akureyri fellur vel að þessu markmiði með öfluga aðila í eigendahópnum og við stjórnvölinn. Unnið er að því að gera starfsemina fjölbreyttari og við sjáum ekki annað en þetta fyrirtæki standi vel að vígi í þeirri þróun sem vænta má hér á svæðinu á næstu árum. Stórar framkvæmdir eru í farvatninu s.s. jarðgangagerð og stóriðja sem vænta má að hafi afleidd áhrif á mörgum sviðum," segir Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings í frétt á heimasíðu Hildings.

Slippurinn Akureyri er að ganga frá samningum um tvö stór verkefni þessa dagana auk annarra verkefna. Útlitið fyrir næstu mánuði gott og bendir allt til þess að verkefnisstaðan verði góð út árið.

Hildingur er fjárfestingafélag sem er í eigu KEA.  Áhersla er lögð á virkt eignarhald og er kjölfesta talin æskileg þó hún sé ekki skilyrði.  Horft er til þess að stærð fjárfestinga sé í kringum 20 - 200 milljónir króna og að eingarhlutur Hildings sé á bilinu 20%-100%.