*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Innlent 6. janúar 2020 08:20

Hildur hlaut Golden Globe

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir varð hlutskörpust á Golden Globe verðlaunahátíðinni sem fram fór í nótt í flokki tónlistar.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir varð hlutskörpust á Golden Globe verðlaunahátíðinni sem fram fór í nótt í flokki tónlistar. Hildur hlaut þá verðlaun fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker.

Í einnar mínútu þakkarræðu sinni fór Hildur um víðan völl. Þakkaði hún meðal annars leikstjóranum Todd Phillips og stórleikaranum Joaquin Phoenix, sem fór með hlutverk Jókersins, fyrir sinn þátt. Í niðurlagi ræðu sinnar vék hún orðum að syni sínum, Kára, og sagði á íslensku „þessi er fyrir þig“.

Þetta er í annað sinn sem kvenmaður vinnur verðlaunin á Golden Globe fyrir tónsmíðar og í fyrsta sinn sem kona vinnur þau einsömul. Þetta er hins vegar í annað sinn sem Íslendingur hlýtur þau en Jóhann Jóhannsson heitinn hlaut þau árið 2015 fyrir kvikmyndina The Theory of Everything.

Árið í fyrra var afar gjöfult fyrir Hildi en hún hlaut meðal annars Emmy verðlaun fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl og er hún tilnefnd til Grammy verðlauna fyrir sömu þætti. Ýmsir telja að Hildi muni síðan vegna vel á Óskarsverðlaunahátíðinni en tilnefningar til verðlauna þar hafa ekki verið kunngjörðar.